Nektarmyndirnar voru falsaðar

Pauline Hanson
Pauline Hanson AP

Stærsta fjölmiðlasamsteypa Ástralíu hefur sent stjórnmálakonunni Pauline Hanson afsökunarbeiðni fyrir að hafa birt nektarmyndir í fjölmiðlum sínum og sagt að myndirnar væru af Hanson. Ritstjórar News Limited staðfesta að þeir hafi verið blekktir og að myndirnar væru ekki af Hanson. Myndirnar voru birtar í undanfara kosninga sem fram fóru í Queensland í gær. Hanson hlaut ekki náð fyrir augum kjósenda og varð undir í kosningunum.

Hanson, sem er mjög til hægri og hefur helst vakið athygli fyrir ummæli sín um hættuna sem Ástölunum stafi af Asíubúum sem þangað flytja, telur að myndbirtingin hafi verið liður í ófrægingarherferð gagnvart sér. En stjórnmálaskýrendur segja hins vegar að fyrri frægðarsól Hanson hafi hrapað mjög hratt undanfarin ár og það sé helsta skýringin á því að hún tapaði kosningunum.

Neil Breen, ritstjóri Sunday Telegraph í Sydney er einn þeirra sem baðst afsökunar og Damon Johnston, ritstjóri Sunday Herald Sun í Melborune tók í sama streng. „Við höfum komist að því að Hanson hafði rétt fyrir sér allan tímann en við höfðum rangt fyrir okkur."

Myndirnar voru birtar í dagblöðum í eigu News Limited, dótturfélags News Corp. fjölmiðlaveldi Ruperts Murdoch, þann 15. mars sl. Sögðu blöðin að myndirnar hafi verið teknar af Jack Johnson, manni sem segist hafa verið unnusti Hanson á áttunda áratugnum. Hún harðneitar því hins vegar að hafa áður heyrt um elskhugann fyrrverandi og hvað þá að hann hafi tekið af henni nektarmyndir. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert