Obama sér vonarneista

Barack Obama Bandaríkjaforseti.
Barack Obama Bandaríkjaforseti. Reuters

Barack Obama Bandaríkjaforseti segir þegar bera á vonarneistum í hagkerfinu. Endurfjármögnun húsnæðislána hafi aukist verulega og vextir aldrei verið lægri.

Obama lét þessi ummæli falla í viðtali við fréttaskýringarþáttinn 60 minutes í kvöld, með þeim orðum að þetta benti til þess að a.m.k. veltan á húsnæðismarkaði væri að ná lágmarki og að hann myndi senn ná stöðugleika.

Vék forsetinn jafnframt að því hversu tengd alþjóðavædd hagkerfin væru orðin.

Þessi staðreynd ætti þátt í hversu hröð niðursveiflan væri en gæti að sama skapi boðað hraðari uppsveiflu en margan grunaði.

Forsetinn svaraði því einnig játandi að verulega gæti hrikt í stöðum bandaríska hagkerfisins ef risafyrirtæki á borð við AIG og Citicorp færu í greiðslustöðvun. 

Kerfislæg áhætta væri enn til staðar.

Hann væri þó bjartsýnn enda hefðu menn lært af reynslunni af kreppunni miklu árið 1929.

Obama vék einnig að atkvæðagreiðslu í fulltrúadeildinni í síðustu viku um að leggja 90 prósent skatt á aukagreiðslur á borð við þær sem starfsmenn tryggingarisans AIG fengu, þrátt fyrir að ríkið hefði komið fyrirtækinu til bjargar.

Sagði forsetinn, sem er menntaður lögfræðingur, að lagasetning mætti ekki beinast að fámennum hópi einstaklinga.

Almenningur yrði að skilja að lagasetning af þessu tagi gæti haft þveröfug áhrif.

Samkvæmt lagasetningunni yrðu kaupaukar starfsmanna fyrirtækja sem hafa meira en 250.000 dali í árstekjur skattlagðir um 90 prósent, að því gefnu að fyrirtæki þeirra hafi fengið meira en 5 milljarða dala í neyðaraðstoð frá ríkinu.

Almenningur tók frumvarpinu vel en fregnir af 165 milljón dala kaupaukum AIG, sem fengið hefur 170 milljarða dala í neyðaraðstoð, voru þá í hámæli.

Forsetinn kom fram í 60 minutes.
Forsetinn kom fram í 60 minutes.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka