Eldgos í Alaska

Viðbúnaðarástand er í Alaska vegna eldgoss, sem hófst í eldfjallinu Redoubt í gær. Um er að ræða öskugos og náði gosmökkurinn upp í allt að 15 km hæð. Ekki er vitað um tjón af völdum gossins en fjallið, sem er 3100 metra hátt, er ekki langt frá Anchorage, stærstu borg ríkisins. 

Flugfélagið Alaska Airlines aflýst 19 flugferðum frá alþjóðaflugvellinum í Anchorage vegna eldgossins en fjallið er í um 160 km fjarlægð frá vellinum. Er þetta gert í varúðarskyni vegna þess að aska kann að berast upp í flughæð vélanna. Þá hafa íbúar í nálægum bæjum verið varaðir við hugsanlegu öskufalli.

Að minnsta kosti fimm öflugar sprengingar hafa orðið í fjallinu frá því í gærkvöldi. Viðbúnaðarástand hefur verið við fjallið frá því í janúar en þá sáust merki um yfirvofandi gos.

Vindar hafa borið ösku í fjallinu til  Susitnadals og Talkeetna en þaðan leggja fjallgöngumenn jafnan af stað vilji þeir ganga á Mount McKinley, hæsta fjall Norður-Ameríku. 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert