Áttatíu og sjö ára gömul kona af austurrísku bergi sem bjó í Bandaríkjunum fullyrðir að hún hafi eignast son með John F. Kennedy, einum ástsælasta forseta Bandaríkjanna á síðustu öld, en síðar hafnað boði hans um að ganga í hjónaband.
Konan, Lisa Lanett, lýsir því þannig í viðtali við austurríska dagblaðið Kurier að hún hafi átt í tveggja ára ástarsambandi við Kennedy eftir að þau hittust í Phoenix í Arizona í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar.
Segir hún þau hafa eignast soninn Tony sem Kennedy hafi svo stutt fjárhagslega allt þar til hann var myrtur í Dallas árið 1963.
Rætt er við soninn, Tony Bohler, sem nú er 63 ára gamall og listaverkasali í Kaliforníu, og þau orð höfð eftir honum að hann hafi aldrei áttað sig á því hvers vegna hann hafi ekki líkst manninum sem móðir hans sagði vera föður hans meira í útlit.
Var sá frá Mexíkó og fyrri eiginmaður Lanett áður en hún hitti Kennedy, samkvæmt sögunni.
Vann á móteli í Phoenix
Eftir að hún skyldi við manninn fluttist hún til Phoenix þar sem hún vann á mótelinu Monterey Lodge sem var í eigu móður hennar.
Kennedy flutti til borgarinnar árið 1943 og jafnaði sig þar á bakmeiðslum sem hann hlaut í stríðinu.
Þangað kominn féll hann fyrir Lanett og fór með henni í rómantískar ferðir um Bandaríkin, að því hún fullyrðir.
Turtildúfurnar hafi ferðast til Miami, New York og Kúbu.
Þegar hún hafi greint Kennedy frá því að hún væri ólétt hafi hann boðið henni að ganga í hjónaband.
Hún hafi hins vegar hafnað boðinu, enda ekki viljað fórna þeim lífsstíl sem hún unni svo vel.
Hitti leynifjölskyldu á laun
Segir hún Kennedy hafa hitt leynifjölskyldu sína á laun, jafnvel eftir að stjórnmálaferill hans hófst.
Lanett viðurkennir að hún geti ekki fært sönnur á mál sitt en Tony var alinn upp af móður hennar Charlotte Bohler.
Hins vegar gæti hún látið bera saman erfðaefni Tonys og Caroline Kennedy til að skera úr um skyldleikann.
Skammt er um liðið frá því Kanadamaðurinn Jack Worthington setti sig í samband við tímaritið Vanity Fair og fullyrti að hann væri sonur JFK.
Nokkru síðar fullyrti fjölskylda hans að framburðurinn væri þvættingur.