Páfi talaði gegn spillingu og fátækt

Benedikt XVI páfi hvatti í dag ríki Afríku til að takast á við fátæktina sem þar ríkir en hann var að ljúka við fyrstu ferð sína um heimsálfuna síðan hann tók við embætti. Ferðin hefur verið afar umdeild, vegna ummæla páfa um smokka og eyðni og sökum þess að tvær konur tróðust undir á laugardaginn þegar fólk flykktist á leikvang þar sem páfinn flutti ræðu.

Í ferðinni hvatti páfinn leiðtoga Afríkuríkjanna til að berjast gegn spillingu og fátækt og reyna að sætta deilur.

Ferðinni lauk í Angóla og fékk páfinn þar mikinn stuðning landsmanna sem flestir eru kaþólskir. Hundruð þúsunda hlýddu á messu sem haldin var undir berum himni í gríðarmiklum hita í gær.

Benedikt gagnrýndi harðlega spillingu meðan Dos Santos stóð við hlið hans en hann hefur stjórnað Angóla í þrjátíu ár og þykir ríkið með þeim spilltari í heimi. Páfi vottaði einnig samúð sína vegna tveggja kvenna sem tróðustu undir á laugardaginn þegar 30 þúsund ungmenni flykktust á leikvang til að hlusta á páfa flytja ræðu. Þar særðust jafnframt 40 manns.

Síðan borgarstyrjöld lauk í Angóla árið 2002 hefur olíu- og demantaiðnaðurinn gert það að verkum að efnahagurinn vænkaðist með ógnarhraða. Hins vegar hefur almenningur ekki fengið að njóta uppsveiflunnar en meirihlutinn lifir á innan við 250 kr. á dag og fjórðungur barna lætur lífið fyrir fimm ára aldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert