Sjö börn létust í flugslysi

Rannsókn er hafin á hvað olli flugslysi í Montana í Bandaríkjunum í gærkvöldi þar sem fjórtán létust, þar af sjö börn. Áður var talið að sautján hefðu farist í slysinu en sú tala reyndist of há. Flugvélin brotlenti í nágrenni kirkjugarðar við bæinn Butte og lifði enginn slysið af.

Ekki er vitað hvað olli slysinu en flugmaðurinn reyndi að nauðlenda henni eftir að hafa skyndilega breytt um flugstefnu. Til stóð að lenda vélinni í Bozeman, skíðasvæði sem er í 136 km fjarlægð frá Butte. Talið er að börnin sem voru í vélinni hafi verið á leið í skíðaferðalag. Vélin, Pilatus PC-12, brotlenti klukkan 15:27 að staðartíma, 21:27 að íslenskum tíma. Samkvæmt upplýsingum BBC eru lendingarskilyrði á flugvellinum í Butte mjög erfið þar sem hann er umlukinn fjallgörðum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert