Stjórnmálamenn og mótmælendur eru komnir í hár saman í borginni Strassborg í Frakklandi vegna aðgerða lögreglu við að koma í veg fyrir að fánar sem hafa verið settir upp til þess að mótmæla Atlantshafsbandalaginu (NATO) fái að hanga uppi. Ráðstefna NATO hefst í borginni eftir nokkra daga.
„Hneyksli og óþolandi," segir Daniel-Cohn Bendit, varaforseti Græningja á Evrópuþinginu. En Bendit er þekktur stjórnmálamaður bæði í Frakklandi og Þýskalandi.
„Algjörlega ólöglegt," segir Patrick Wachsmann, lagaprófessor við Háskólann í Strassborg en hann er sérfræðingur í réttindum almennings.
Jafnvel borgaryfirvöld hafa neitað að taka þátt í ákvörðun lögreglunnar. Í yfirlýsingu sem þau sendu frá sér seint í gærkvöldi kemur fram að þau neiti að hafa fyrirskipað lögreglu að taka niður fána og borða í gluggum heimila í borginni.
Borða- og fánadeilan hófst þegar lögreglan fór að fara inn á heimili almennra borgara sem settu upp fána með áletruninni Nei við NATO í glugga húsa sinna.
Einn þeirra sem fékk lögregluheimsókn í síðustu viku er Christian Grosse. Hann sagði í samtali við AFP fréttastofuna að fjölskyldan hafi fengið skipun um að taka fánana niður. „Það var sonur minn sem tók á móti þeim. Þeir sögðu við hann. annað hvort tekur þú fánana niður eða við gerum það."