Friðarráðstefnu sem til stóð að halda fyrir nóbelsverðlaunahafa í Suður-Afríku hefur verið slegið á frest eftir að yfirvöld þar í land meinuðu Dalai Lama að koma til landsins af því tilefni. Ráðstefnan, sem fara átti fram nú í vikunni, var skipulögð í tilefni af heimsmeistarakeppninni í fótbolta sem fram fer í S-Afríku á næsta ári.
Miklar deilur hafa kviknað í kjölfar bannsins og hafa yfirvöld í Suður-Afríku verið ásökuð um að kikna undan þrýstingi frá Kínverjum. Skipulagning ráðstefnunnar var í uppnámi eftir ákvörðun yfirvalda, því í kjölfarið neituðu tveir mikilvægir gestir hennar, þeir Desmond Tutu erkibiskup og FW de Klerk fyrrum forseti Suður-Afríku, að mæta í mótmælaskyni.
Þrátt fyrir allt þetta segjast yfirvöld Suður-Afríku standa við ákvörðun sína, Dalaí Lama verði ekki boðinn til Suður-Afríku og muni ekki fá vegabréfaáritun heldur, hvorki nú né nokkurn tíma fyrir heimsmeistaramótið. Yfirskrift friðarráðstefnunnar var hlutdeild fótbolta í að berjast gegn kynþáttahatri og fordómum.