Næsti leiðtogi NATO skilur norsku

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs.
Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs. mbl.is/Brynjar Gauti

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, sagðist í gærkvöldi búast við því, að næsti framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, skilji norsku þótt hann sé ekki norskur sjálfur. Þetta telja Danir til marks um, að búið sé að ákveða að Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, hreppi embættið.

Gahr Støre var sjálfur orðaður við framkvæmdastjóraembættið en sagði í gærkvöldi við norska fjölmiðla, að næsti framkvæmdastjóri NATO yrði ekki Norðmaður. Þegar blaðamenn spurðu Gahr Støre hvort væntanlegur framkvæmdastjóri NATO skildi norsku svaraði hann: Já.

Danska blaðið Jyllands-Posten segir í dag, að í ljósi þess að hvorki Svíar né Finnar séu aðilar að NATO hljóti þetta að þýða að Dani verði næsti framkvæmdastjóri bandalagsins. Blaðið minnist hins vegar ekki á Ísland.

Gahr Støre lagði þó áherslu á að ekki hafi verið tekin formleg ákvörðun innan NATO um hver verði næsti framkvæmdastjóri. Hins vegar hafa flestar stærstu þjóðirnar innan bandalagsins lýst yfir stuðningi við Fogh Rasmussen ef Tyrkir eru undanskildir. Þeir hafa lýst andstöðu við að Dani gegni embættinu vegna skopmyndamálsins svonefnda, sem kom upp í Danmörku fyrr á þessum áratug. Tyrkir hafa hins vegar ekki lýst því yfir að þeir muni beita neitunarvaldi gegn Fogh Rasmussen. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert