Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur hringt um alla jörð frá því hann tók við embætti í janúar. Í dag hringdi hann svo út í geim og ræddi við geimfara, sem eru í alþjóðlegu geimstöðinni.
Alls eru nú 10 geimfarar í geimstöðinni frá Bandaríkjunum, Rússlandi og Japan en geimferjan Discovery er nú stödd þar. Þeir upplýstu Obama um að stöðin færi umhverfis jörðina á eins og hálfs tíma fresti og sæju sextán sólarupprásir og sólarlög á hverjum sólarhring.
„Eruð þið ólaðir fastir eða gætuð þið flotið á burt?" spurði forsetinn. Geimfararnir svöruðu, að þeir héldu sér í sætin með tánum og í þann mund sveif einn þeirra af stað.