Rautt kjöt og krabbamein

Vísindamenn við Krabbameinsstofnun Bandaríkjanna hafa fundið nýjar vísbendingar um að óhófleg neysla á rauðu kjöti og unnum kjötvörum sé skaðleg heilsu manna. Vísindamenn segja að þeir sem neyta mikils kjöts séu í margfalt meiri hættu á að fá krabbamein og aðra banvæna sjúkdóma. Þeir sem leggja sér hvítt kjöt til munns í meira mæli eru í töluvert minni hættu.

Niðurstöður sínar byggja vísindamennirnir á rannsókn á mataræði rúmlega 500 þúsund manns. Lífslíkur þeirra sem neyttu rauðs kjöts eða unninna kjötvara í mestum mæli, voru mun lakari en annarra. Krabbamein og hjartasjúkdómar voru mun algengari en hjá öðrum sem neyttu minna kjöts eða unninna kjötvara.

Þeir sem mest borða af rauðu kjöti eða unnum kjötvörum, borða að meðaltali 160 grömm á dag. Þeir sem minnst borða neyta aðeins 25 gramma af rauðu kjöti eða unnum kjötvörum á dag. Munurinn er rúmlega sexfaldur.

Þá segja vísindamenn við Krabbameinsstofnun Bandaríkjanna að þeir sem neyttu frekar hvíts kjöts, væru í mun minni hættu á að fá krabbamein, hjartasjúkdóma og aðra banvæna sjúkdóma en jafnvel þeir sem minnst borða af rauðu kjöti eða unnum kjötvörum.

Vísindamenn fullyrða að koma hefði mátt í veg fyrir 11% dauðsfalla meðal karla og 16% dauðsfalla kvenna í rannsóknarhópnum með breyttu mataræði. Þeir benda á að krabbameinsvaldandi efni myndist þegar kjötið er eldað við háan hita. Þá hefur hátt hlutfall mettaðrar fitu í kjöti verið talið valda krabbameini í brjóstum og ristli.

Með því að draga úr neyslu kjötafurða segja vísindamenn að draga megi úr líkum á hjartasjúkdómum, háþrýstingi og háu kólesteróli og almennum krankleika.

Vísindamenn við Krabbameinsstofnun Bandaríkjanna segja að einn af hverjum tíu sé meðvitaður um hætturnar og hafi reynt að draga úr neyslu kjötvara.

Vísindamenn segja nauðsynlegt að draga úr neyslu kjötvara. Meðalhófið sé best og þeir séu ekki að mælast til þess að fólk forðist beikon og hamborgara. Æskilegt sé að fólk borði u.þ.b. 30 grömm af kjöti á dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert