Eldfjallið Redoubt í Alaska hefur nú gosið sex sinnum á 24 klukkustundum og spýr ösku og eimyrju 15 kílómetra upp í loftið. Eldfjallið hefur legið í dvala í 20 ár en tók við sér seint á sunnudag.
Öskufall hefur verið í smábæjum norður af höfuðborginni Anchorage, en borgin sjálf hefur enn ekki orðið fyrir áhrif frá eldgosinu. Flugfélagið Alaskan Airlines hefur þurft að aflýsa fjölda flugferða vegna öskufallsins, en askan er enn ekki talin hættuleg mönnum þótt hún geti valdið kláða á skinni og öndunarerfiðleikum.
Talið er að eldgos geti staðið yfir í fjallinu í allt að þrjá til fjóra mánuði og þurfa Alaskabúar að vera á varðbergi á meðan.