Lifði af tvær kjarnorkuárásir

Friðargarðurinn í Hiroshima þar sem kjarnorkusprengja sprakk fyrir 63 árum.
Friðargarðurinn í Hiroshima þar sem kjarnorkusprengja sprakk fyrir 63 árum. Reuters

Stjórnvöld í Japan hafa staðfest formlega, að 93 ára gamall karlmaður sé sá fyrsti, sem vitað er til að hafi lifað af báðar kjarnorkuárásir Bandaríkjamanna á Japan í ágúst 1945. 

Maðurinn, sem heitir Tsutomu Yamaguchi, var í Hiroshima þegar bandarísk sprengjuflugvél varpaði kjarnorkusprengju á borgina 6. ágúst.  Yamaguchi hlaut alvarleg brunasár af völdum sprengjunnar en hélt samt heim til sín í borginni Nagasaki. Bandaríkjamenn vörpuðu sprengju á þá borg 9. ágúst.

Yamaguchi hafði áður fengið staðfestingu á að hann sé hibakusha, það er hafi lifað af geislavirkni í  Nagasaki. Í vikunni var einnig staðfest að hann hefði lifað af árásina á Hiroshima.

„Ég vildi aðeins útskýra þær hörmungar, sem aðeins sá sem lifað hefur af tvær kjarnorkuárásir getur skilið," sagði Yamaguchi við blaðamenn. „Ég vil fræða komandi kynslóðir um hrylling kjarnorkusprengjunnar og gera þeim kleift að skilja hve friður er mikilvægur."

Talið er að allt að 140 þúsund manns hafi látið lífið í Hiroshima og 80 þúsund manns í Nagasaki á árinu 1945 í kjölfar árásanna. Síðan þá hafa tugir þúsunda manns, sem voru í borgunum tveimur, látist af völdum sjúkdóma, sem raktir eru til geislavirkni vegna sprenginganna.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert