Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, mun gefa sér tíma á fimmtudaginn til að svara nokkrum spurningum á netinu varðandi stöðu efnahagsmála í Bandaríkjunum. Almenningi hefur verið boðið að senda spurningar á heimasíðu Hvíta hússins og spyrja forsetann beint um ýmis mál.
Í gær kynntu talsmenn Hvíta hússins nýjung sem kallast „Open for Questions“, eða tekið við spurningum. Þegar hafa 15.000 spurningar borist frá 12.600 manns.
Skráðir notendur geta kosið á milli þeirra spurninga og nú þegar hafa yfir 460.000 atkvæði verið greidd.
Obama segir í myndskeiði, sem er birt á vefsíðu Hvíta hússins, að hann vilji opna Hvíta húsið fyrir almenningi svo fólk átti sig betur á þeirri starfssemi sem eigi sér þar stað. Þá vilji hann hvetja fólk til að taka þátt í þeirri starfsemi sem eigi sér þar stað.
„Við ætlum að nýta kosti netsins og bjóða ykkur öllum í Hvíta húsið til að ræða um efnahagsmál,“ segir Obama.
„Þetta er tilraun, en einnig spennandi tækifæri fyrir mig að horfa á tölvuskjá og sjá skyndimynd af því sem Bandaríkjamönnum þykir mikilvægast,“ segir forsetinn.
Hann tekur fram að þrátt fyrir að menn séu ekki ávallt sammála um allt þá geti hann fengið tilfinningu fyrir því hvað landsmenn séu að hugsa og svarað þeim á hreinskilinn hátt.