Bandarísk blöð skera niður

Skrifstofur New York Times á Manhattan-eyju.
Skrifstofur New York Times á Manhattan-eyju. Reuters

Bandarísku stórblöðin New York Times og Washington Post áforma að lækka laun og segja upp starfsfólki til að mæta stöðugt minnkandi auglýsingatekjum. 

New York Times tilkynnti í kvöld að móðurfélagið, Times Co., áformaði að lækka laun flestra starfsmanna um 5% í níu mánuði en starfsmenn fá 10 daga frí aukalega á móti. Þessar ráðstafanir ná einnig til starfsmanna Boston Globe, sem er í eigu Times Co. Þá verður um 100 starfsmönnum sagt upp.

Washington Post tilkynnti, að starfsmönnum, sem orðnir eru 50 ára og hafa að minnsta kosti 5 ára starfsreynslu, verði boðið að hætta gegn starfslokasamningum. Er það í annað skipti á innan við ári sem gripið er til slíkra ráðstafana til að draga úr kostnaði.

Í lok ársins voru 9346 starfsmenn hjá Times Co. og hafði fækkað um 1500 á tveimur árum.

Tveimur bandarískum stórblöðum, Rocky Mountain News í Denver  og Seattle Post-Intelligencer, hefur verið lokað á síðustu mánuðum. Þá verður  blaðið Christian Science Monitor bráðlega flutt yfir á netið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka