Lögreglumaður í Svíþjóð var í undirrétti í Stokkhólmi dæmdur fyrir meiðyrði. Hann hafði varað sjóð við því að dæmdur barnaníðingur hefði fengið um fjórar milljónir sænskra króna í styrk vegna námskeiða fyrir börn.
Lögreglumaðurinn hafði ásamt starfsfélaga sínum verið í eftirlitsferð þegar þeir sáu grunsamlegan bíl. Við athugun kom í ljós að eigandi bílsins hafði verið dæmdur fyrir barnaklám og kynferðislegt ofbeldi gegn 13 ára barni. Lögreglumennirnir knúðu dyra í byggingunni þar sem hinn dæmdi barnaníðingur var og áttu við hann orðaskipti, að því er segir á fréttavef Dagens Nyheter. Mun lögreglumaðurinn hafa kallað barnaníðinginn „helvítis fífl“.
Lögreglumaðurinn, sem nú hefur verið dæmdur, ákvað að rannsaka hvers konar starfsemi færi fram í byggingunni. Þegar hann komst að því að barnaníðingurinn ætlaði að halda þar dansnámskeið fyrir börn og unglinga fyrir styrk úr sjóðnum ákvað hann að láta forsvarsmenn sjóðsins vita. Barnaníðingurinn var sviptur styrknum en hann telur að lögreglumaðurinn sé fordómafullur vegna samkynhneigðar hans.
Lögreglumaðurinn var dæmdur til þess að greiða 48 þúsund sænskar krónur í sekt og 15 þúsund sænskar krónur í skaðabætur til barnaníðingsins. Dómnum verður áfrýjað.