Andstæðingar dauðarefsingar í Bandaríkjunum vonast nú til þess að ákvörðun Nýja Mexíkó um að banna dauðarefsingar marki tímamót, auk þess sem versnandi efnahagsástand gefur þeim vind í seglin.
Nýja Mexíkó varð í síðustu viku 15. fylki Bandaríkjanna til að banna aftökur og segja mannréttindasamtök að sú ákvörðun ríkisstjórans, Bill Richardson sendi öflug skilaboð til annara fylkja um að endurskoða hið gallaða réttarfar dauðarefsingar Bandaríkjanna sem mismuni fólki og sé í raun gjaldþrota hugmyndafræði.
Þá hafa baráttuhópar bent á að mikill kostnaður felist í því fyrir hinn almenna skattgreiðanda að viðhalda dauðarefsingu. Stuðningsmenn nýju laganna í Nýja Mexíkó halda því fram að fylkið muni spara meira en milljón dollara á ári með því að skipta dauðarefsingu út fyrir ævilangt fangelsi án möguleika á skilorði.
20 fangar hafa þegar verið teknir af lífi í Bandaríkjunum það sem af er þessu ári og er Texas sem fyrr methafinn í þeim efnum, með 12 aftökur á þessu ári og 18 af 37 aftökum á landsvísu í fyrra.
Andstæðingar dauðarefsingar vonast nú til að fleiri fylki fylgi í fótsport Nýja Mexíkó, ekki síst vegna sparnaðarins sem í því felist. Dauðarefsingar geta verið allt að 10 sinnum dýrari en ævilangt fangelsi, m.a. vegna lengri réttarhalda og meiri fjölda áfrýjanna. Lagafrumvörp til að banna dauðarefsingar eru nú til skoðunar í Montana, Colorado og Illinois.