Eftirlýstur fjöldamorðingi væntanlega ekki til

Lögregla í Þýskalandi hefur viðurkennt, að fjöldamorðingi, sem leitað hefur verið að í 15 ár, hafi væntanlega aldrei verið til. „Morðinginn," sem var talinn vera kona og afar hættuleg, fékk viðurnefnið vofan í Heilbronn.

Lögregla tengdi vofuna við sex morð og fleiri afbrot og byggði það á DNA rannsóknum á sýnum, sem fundust á morðstöðunum. Nú telur lögregla hins vegar, að bómullarpinnar, sem notaðir voru til að safna DNA-sýnunum, kunni að hafa orðið fyrir mengun í verksmiðjunni þar sem þeir voru framleiddir og „vofan" sé óþekktur starfsmaður í verksmiðjunni sem hafi snert pinnana áður en þeim var pakkað inn.  Verið er að rannsaka þúsundir bómullarpinna og starfsmenn í verksmiðjunni hafa verið beðnir um að láta lögreglu DNA-sýni í té.

300 þúsund evrur voru settar til höfuðs konunni óþekktu árið 2007 eftir að lögreglukona var myrt í Heilbronn og DNA-rannsóknir tengdu vofuna við morðið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert