Gríðarleg flóð í Norður-Dakóta

Íbúar í borginni Fargo í Norður-Dakóta keppast nú við að hlaða upp sandpokum og byggja skyndistíflur til að búa sig undir helgina, því veðurfræðingar spá nú mestu flóðum sem orðið hafa í fylkinu í 100 ár. Þúsundir sjálfboðaliða hafa lagt kapp á það allan sólahringinn síðustu daga að vera borgina undan vatni árinnar Red River, en búist er við að yfirborð hennar muni rísa um 12,5 metra.

Gríðarleg úrkoma í formi slyddu og hagléls hefur verið í fylkinu alla þessa viku og fór rafmagn af Fargo í gær auk þess sem margir vegir eru lokaðir. „Þetta eru alveg óþekktar aðstæður,“ hefur AFP eftir borgarstjóranum Dennis Walaker. „Ef náttúran hefur eitthvað meira í pokahorninu fyrir okkur þá getur það ekki verið annað en hvirfilbylur.“

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir neyðarástandi í 34 sýslum Norður-Dakóta og tveimur indiánafriðlendum að auki þar sem óttast er að bókstaflega allt fylkið fari undir vatn. Íbúum þeirra heimila sem lægst liggja hefur verið gert að yfirgefa heimili sín en enn sem komið er hafa litlar skemmdir orðið á húsum, nema í kjöllurum.

„Fylkið er orðið að fiskatjörn og getur hreinlega ekki sogið í sig meiri snjó eða rigningu,“ segir veðurfræðingurinn Patrcik Slattery. Fjölmargir sjálfboðaliðar frá nágrannafylkjum hafa komið til Norður-Dakóta til að aðstoða við að bjarga því sem bjargað verður.

Kevin Hard, íbúi Norður-Dakóta, á pallbíl fullum af sandpokum ætluðum …
Kevin Hard, íbúi Norður-Dakóta, á pallbíl fullum af sandpokum ætluðum í flóðvarnargarða
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert