Franskir verkamenn í verksmiðju suður af París hafa nú sleppt yfirmanni sínum lausum eftir að hafa haldið honum í gíslingu í hátt í sólarhring vegna uppsagna hjá fyrirtækinu. Yfirmanninum, Luc Rousselet, var ekki sleppt lausum fyrr en hann hafði skrifað undir samkomulag um að endurskoða kjör atvinnulausra starfsmanna.
Þetta er nýjasta tilvikið af mörgum þar sem franskir verkamenn taka til eigin ráða til að reyna að berjast við áhrif efnahagsástandsins. Um 20 verkamenn lokuðu Rousselet inni á skrifstofu hans á þriðjudagskvöld og slepptu honum á gærkvöldi eftir að hann hafði samþykkt að hefja nýjar samningaviðræður um starfslokakjör þeirra 110 verkamanna sem sagt hefur verið upp störfum við verksmiðjuna. Hann sagði við fjölmiðla í gær að ekki hefði verið illa farið með hann og hann væri ánægður með að þetta atvik hefði leyst úr ákveðinni pattstöðu hjá fyrirtækinu. Talsmaður stéttafélags starfsmannanna sagði það vera eina úrræði þeirra að taka yfirmann sinn til fanga til að tryggja sanngjörn kjör.
Vaxandi samfélagsleg spenna er nú í Frakklandi vegna efnahagsástandsins og uppsagna. Allt að þrjár milljónir manna tóku þar þátt í mótmælum á vegum stéttafélaga í síðustu viku og í gær þustu verkamen í hjólbarðaverksmiðju sem til stendur að loka út á götur Parísar og brenndu hjólbarða í mótmælaskyni.