Um milljarður jarðarbúa, sem búa í stærstu borgum heims, eru hvattir til að slökkva ljósin heima hjá sér í klukkustund nk. laugardag, eða kl. 20:30 að staðartíma. Þetta tengist „Earth Hour“, eða Jarðartímanum, þar sem íbúar heims eru hvattir til aðgerða gegn loftlagsbreytingum.
Ljósin verða m.a. slökkt í Empire State byggingunni í New York, við egypsku pýramídana í Giza, Petronas turnana í Kuala Lumpur, Akrópólis í Aþenu og Tapei 101 byggingunni í Taívan. Þetta kemur fram á vef skipuleggjendanna.
Þá verða ljósin slökkt í rúmlega 200 byggingum í París í klukkutíma, t.d. í Louvre listasafninu, Notre-Dame kirkjunni og Óperuhúsinu í París.
Auk þess um Eiffel-turninn verða myrkvaður í fimm mínútur og hætt verður við ljósasýningu, sem á að hefjast kl. 21 að staðartíma.
Það eru náttúruverndarsamtökin World Wildlife Fund sem skipulögðu Jarðartímann í fyrsta sinn árið 2007.
Alls tóku 370 borgir í 35 löndum þátt í átakinu í fyrra. Að sögn WWF munu 1.189 borgir taka þátt í ár.
Fólki gefst kostur á að blogga eða búa til myndskeið um það hvernig það er að vera í myrkri í klukkustund. Nánar um það hér.
Sameinuðu þjóðirnar styðja átakið og hefur Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, sagt að þetta séu skýr skilaboð um að fólk grípi til aðgerða til að sporna við áhrifum loftlagsbreytinga.