Bleikur pardus tekinn á Kýpur

Lög­regla á Kýp­ur tel­ur sig hafa hand­tekið einn hinna svo­kölluðu Bleiku par­dusa en það er hóp­ur bí­ræf­inna skart­gripaþjófa. Bleiku par­dus­arn­ir eru grunaðir um að hafa stolið skart­grip­um fyr­ir rúm­lega 110 millj­ón­ir evra um all­an heim. In­terpol setti upp sér­staka sveit fyr­ir hálfu öðru ári til að hand­sama Bleiku par­dus­ana en þeir eru grunaðir um á annað hundrað vopnuð rán.

Rifat Hadzia­h­met­ovic, 41 árs Svart­fell­ing­ur, var hand­tek­inn þegar hann reyndi að yf­ir­gefa landið með falsað vega­bréf. Í ljós kom að gefn­ar höfðu verið út hand­töku­skip­an­ir á hend­ur hon­um á Spáni. Dóm­ari á Kýp­ur fyr­ir­skipaði að Hadzia­h­met­ovic skyldi dúsa í gæslu­v­arðhaldi þar til hann verður fram­seld­ur til Spán­ar.

Hadzia­h­met­ovic er eft­ir­lýst­ur vegna skart­griparána í fjöl­mörg­um lönd­um, þar á meðal í Bahrain, á Spáni og í Sam­einuðu ar­ab­ísku fursta­dæmun­um. Að auki leik­ur grun­ur á að Hadzia­h­met­ovic hafi framið nokk­ur skart­griparán á Kýp­ur að und­an­förnu.

Rifat Hadzia­h­met­ovic er tal­inn til­heyra glæpa­gengi frá Balk­anskaga sem kall­ast Bleiku par­dus­arn­ir. Gengið er grunað um 120 skart­griparán í rúm­lega 20 lönd­um.

Bleiku par­dus­arn­ir eru grunaðir um rán á Teneri­fe þar sem úrum og skart­grip­um fyr­ir 660 þúsund evr­ur var stolið. Talið er að hópn­um til­heyri allt að 200 manns, sum­ir með um­tals­verða leyniþjón­ustuþjálf­un.

Lög­reglu­full­trú­ar frá Evr­ópu, Jap­an og Sam­einuðu ar­ab­ísku fursta­dæmun­um hitt­ust í Mónakó fyrr í mánuðinum til að leggja á ráðin í leit­inni að Bleiku par­dus­un­um. Sér­stök sveit In­terpol hef­ur elst við Bleiku par­dus­ana frá því í júlí 2007.

Lög­regla seg­ir rán­in þaul­skipu­lögð en fram­ganga þeirra sé öllu rudda­legri en sést hafi í kvik­mynd­un­um um Bleika par­dus­inn og Clou­seau lög­reglu­for­ingja.

Tveir fé­lag­ar Bleiku par­dus­anna, Ser­bi og Bosn­íumaður, voru hand­tekn­ir í Mónakó í fyrra vegna gruns um skipu­lagn­ingu ráns. Þrír Ser­bar til viðbót­ar voru hand­tekn­ir og dæmd­ir í Frakklandi í sept­em­ber síðastliðnum. Menn­irn­ir voru dæmd­ir í sex til fimmtán ára fang­elsi.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert