Lögregla á Kýpur telur sig hafa handtekið einn hinna svokölluðu Bleiku pardusa en það er hópur bíræfinna skartgripaþjófa. Bleiku pardusarnir eru grunaðir um að hafa stolið skartgripum fyrir rúmlega 110 milljónir evra um allan heim. Interpol setti upp sérstaka sveit fyrir hálfu öðru ári til að handsama Bleiku pardusana en þeir eru grunaðir um á annað hundrað vopnuð rán.
Rifat Hadziahmetovic, 41 árs Svartfellingur, var handtekinn þegar hann reyndi að yfirgefa landið með falsað vegabréf. Í ljós kom að gefnar höfðu verið út handtökuskipanir á hendur honum á Spáni. Dómari á Kýpur fyrirskipaði að Hadziahmetovic skyldi dúsa í gæsluvarðhaldi þar til hann verður framseldur til Spánar.
Hadziahmetovic er eftirlýstur vegna skartgriparána í fjölmörgum löndum, þar á meðal í Bahrain, á Spáni og í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Að auki leikur grunur á að Hadziahmetovic hafi framið nokkur skartgriparán á Kýpur að undanförnu.
Rifat Hadziahmetovic er talinn tilheyra glæpagengi frá Balkanskaga sem kallast Bleiku pardusarnir. Gengið er grunað um 120 skartgriparán í rúmlega 20 löndum.
Bleiku pardusarnir eru grunaðir um rán á Tenerife þar sem úrum og skartgripum fyrir 660 þúsund evrur var stolið. Talið er að hópnum tilheyri allt að 200 manns, sumir með umtalsverða leyniþjónustuþjálfun.
Lögreglufulltrúar frá Evrópu, Japan og Sameinuðu arabísku furstadæmunum hittust í Mónakó fyrr í mánuðinum til að leggja á ráðin í leitinni að Bleiku pardusunum. Sérstök sveit Interpol hefur elst við Bleiku pardusana frá því í júlí 2007.
Lögregla segir ránin þaulskipulögð en framganga þeirra sé öllu ruddalegri en sést hafi í kvikmyndunum um Bleika pardusinn og Clouseau lögregluforingja.
Tveir félagar Bleiku pardusanna, Serbi og Bosníumaður, voru handteknir í Mónakó í fyrra vegna gruns um skipulagningu ráns. Þrír Serbar til viðbótar voru handteknir og dæmdir í Frakklandi í september síðastliðnum. Mennirnir voru dæmdir í sex til fimmtán ára fangelsi.