Danir þreyttir á Tyrkjum

RecepTayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands.
RecepTayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands. Reuters

Ýmsir samherjar Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hafa í dag lýst yfir reiði sinni vegna mótsagnakenndra yfirlýsinga leiðtoga Tyrkja varðandi hugsanlegra skipun Fogh í embætti framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins NATO. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Abdullah Gül, forseti Tyrklands, lýsti í gær hrifningu sinni á Rasmussen en síðar sama dag greindi Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyklands frá því að hann væri undir miklum þrýstingi frá múslímum um að beita neitunarvaldi gegn skipan Fogh í embættið.

Fréttaskýrendur hafa bent á að hugsanlega megi rekja mótsagnakenndar yfirlýsingar þeirra til þess að sveitastjórnarkosningar fara fram í Tyrklandi á morgun.

Jens Rohde, frambjóðandi Vensre til Evrópuþingsins, segir yfirlýsingarnar þó geta reynst Fogh dýrkeyptar og að þær séu til marks um mun stærra vandamál í samskiptum Tyrkja og annarra Evrópuríkja.

„Erdogan segir að Fogh fari í taugarnar á Tyrkjum og múslíkum vegna teikningamálsins. Erdogan og þeir sem eru honum sammála fara í taugarnar á mér á nákvæmlega sama hátt af sömu ástæðu,” segir Jens Rohde. Þá segir hann framkomu tyrkneskra ráðamanna í málinu sýna glöggt hvers vegna Tyrkir geti ekki átt jafn greiðan aðgang að Evrópusambandinu og ýmsar aðrar þjóðir.

„Erdogan nýtur þess að segja frá því hversu margir hafa hringt í  hann og kvartað undan Fogh. Þá verður hann líka að sætta sig við það að við tjáum okkur um hans mál,” segir hann. „Það er mikið vandamál að ríki sem sækist eftir aðild að Evrópusambandinu hafi engan skilning á því hversu langt tjáningarfrelsið nær. Það er satt að segja þreytandi að hlusta á þetta.”   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert