Kona sem lýst var eftir í Kaliforníu í Bandaríkjunum fyrir sjö árum fannst nýlega látin á heimili sínu. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Talið er að konan, sem var á áttræðisaldri, hafi látist skömmu áður en lýst var eftir henni og hefur lögreglurannsókn verið hafin á því hvers vegna hennar var ekki leitað á heimilinu.
Einnig er hafin rannsókn á því hvers vegna lögregla brást ekki við tilkynningum nágranna konunnar um að einkennileg lykt bærist frá húsinu og að hústökufólk hefðist þar við.
Dætur konunnar munu hafa fundið fullklædda beinagrind hennar er þær hugðust taka til í húsinu, sem til stóð að selja.