Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, hringdi í Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, í gær og sagði honum umbúðalaust að tyrknesk stjórnvöld ættu erfitt með að sætta sig við að hann yrði framkvæmdastjóri NATO.
Að vísu eru boðin frá Tyrkjum nokkuð misvísandi því Abdullah Gül, forseti landsins, sagði í Brussel í gær, að Tyrkir myndu ekki leggjast gegn neinum hugsanlegum kandídat í starfið, ekki heldur danska forsætisráðherranum, sem væri afar þýðingarmikill stjórnmálamaður á evrópska sviðinu.
Erdogan sagði við tyrkneska sjónvarpið í gærkvöldi, að hann hefði hringt í Fogh Rasmussen og sagt að múslimar víða um heim væru honum reiðir vegna skopmyndamálsins svonefnda, sem kom upp í Danmörku árið 2005. Þá birti blaðið Jyllands-Posten skopmyndir af Múhameð spámanni, sem fóru mjög fyrir brjóstið á múslinum.
Erdogan sagðist hafa átt langt samtal við danska forsætisráðherrann, sem enn hefur ekki staðfest, að hann sækist eftir embættinu hjá NATO þótt flestar stærstu þjóðir bandalagsins hafi þegar lýst yfir stuðningi við hann.
„Flokkurinn minn hefur grundvallarreglur og ég get ekki brotið gegn þeim," sagði Erdogan en AKP flokkur hans byggir á kenningum múslima.
Erdogan sagðist hafa fengið símtöl frá þjóðarleiðtogum í múslimaríkjum, sem hafi hvatt Tyrki, eina múslimaríkið í NATO, til að beita neitunarvaldi gegn skipun Foghs í embætti framkvæmdastjóra.
Þá gagnrýndi Erdogan danska forsætisráðherrann fyrir að hafa ekki látið loka sjónvarpsstöðinni Roj-tv, sem sendir úr frá Danmörku. Tyrknesk stjórnvöld líta á stöðina sem málpípu Verkamannaflokks Kúrda, PKK, sem víðasthvar er skilgreindur sem hryðjuverkasamtök.
„Þetta hefur staðið yfir í 4 ár og málinu er ekki lokið. Við erum afar óánægð með það," sagði Erdogan.