Samskipti Bandaríkjanna og Pakistan í hættu

Pakistanar fylgja fórnarlömbum sprengjuárásar í Jamrud í Khyber sjálfstjórnarhéraðinu til …
Pakistanar fylgja fórnarlömbum sprengjuárásar í Jamrud í Khyber sjálfstjórnarhéraðinu til grafar Reuters

Háttsettir yfirmenn innan Bandaríkjahers segja herinn hafa sannanir fyrir því að talibanar njóti virks stuðnings innan pakistanska heraflans. Þá segja þeir að binda verði enda á slíkt eigi Bandaríkin áfram að geta starfað með yfirvöldum í Pakistan. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Einn yfirmaðurinn Mike Mullen aðmíráll segir þetta bæði eiga við um hersveitir Pakistana og talibana og liðsmenn al Qaeda á landamærum Afganistans annars vegar og pakistanska hermenn og liðsmenn herskárra samtaka á landamærum Pakistans og Indlands hins vegar.

„Það eru sterkar vísbendingar um slíkt og það er eitt af því sem verður að breytast,” segir hann.  

David Petraeus, annar yfirmaður bandaríska herliðsins, segir að svo virðist sem pakistanski stjórnarherinn hafi oftar en einu sinni varað herská samtök uppreisnarmanna við því að árásir á höfuðstöðvar þeirra væru yfirvofandi.

„Þetta er mjög mikilvægt því ef það eru tengsl þarna á milli og haldi slíkt áfram grefur það undan aðgerðum og um leið undan því trausti sem við erum að reyn að byggja upp,” segir hann. 

Aðrir ónefndir heimildarmenn bandarísku fréttastofunnar PBS taka í sama streng og segja landamærahéruð Afganistans og Pakistans nú vera þann stað í heiminum sem ógni öryggi bandarískra borgara mest. Það ógni því samskiptum ríkjanna telji Bandaríkjastjórn sig ekki geta treyst pakistanska hernum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert