Barack Obama Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í sjónvarpsviðtali í dag að Bandaríkin væru reiðubúin til árása á skotmörk innan landamæra Pakistans. Hann sagði bandaríkaherliðið í Afganistan þó ekki hafa leyfi til að fara yfir landamæri ríkjanna. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
„Ég hef ekki skipt um skoðun,” sagði Obama í þættinum "Face the Nation" á CBS sjónvarpsstöðinni. „Höfum við mikilvægt skotmark í sjónmáli þá ráðumst við á það eftir að hafa haft samráð við Pakistan."
Forsetinn sagði áherslu stórnar sinnar á baráttuna gegn al Qaeda þó ekki breyta því að Bandaríkjastjórn viðurkenni landfræðileg yfirráð Pakistans yfir landamærahéruðum sem liggja að Afganistan. „Við neyðumst til að vinna með þeim í baráttunni gegn al Qaeda," sagði hann. „Það er hins vegar tímabært að þeir axli mun meiri ábyrgð en þeir hafa gert hingað til.”