Kanadískir rannsóknarmenn segja, að alþjóðlegt tölvunjósnanet, sem er með mistök í Kína, hafi nú náð til stjórnarskrifstofa um allan heim. Segja Kanadamennirnir að njósnurunum hafi tekist að komast í 1295 tölvur í 103 löndum.
Að sögn fréttavefjar BBC hafa njósnararnir m.a. komist inn í tölvur, sem tilheyra utanríkisráðuneytum og sendiráðum og tölvur sem tengjast Dalai Lama, andlegum leiðtoga Tíbetbúa.
Engar öruggar sannanir eru fyrir því að stjórnvöld í Kína standi á bak við njósnirnar og þau neita einnig allri aðild að málinu.
Upplýsingarnar koma fram í skýrslu, sem stofnunin Information Warfare Monitor hefur sent frá sér en hún tengist m.a. háskólanum í Toronto. Það var skrifstofa Dalai Lama, sem óskaði eftir því að stofnunin rannsakaði hvort brotist hefði verið inn í tölvukerfið.
Fram kemur í skýrslunni að svo virðist sem utanríkisráðuneyti Írans, Bangladesh, Lettlands, Indonesíu, Filippseyja, Brunei, Barbados og Bútan virðist hafa orðið fyrir barðinu á njósnurum.
Einnig hafði verið brotist inn í tölvukerfi sendiráða Indlands, Suður-Kóreu, Indónesíu, Rúmeníu, Kýpur, Möltu, Taílands, Taívan, Portúgals, Þýskalands og Pakistans.
Sérfræðingar segja, að í raun sé um að ræða iðnaðarnjósnir þar sem tölvuþrjótar sýna störfum þingmanna og stórfyrirtækja mikinn áhuga. Sé tölvuþrjótunum í raun kleift að ná valdi á tölvum sem tilheyra nokkrum utanríkisráðuneytum og sendiráðum.