Að minnsta kosti 19 manns létu lífið og 132 slösuðust í troðningi, sem varð á knattspyrnuvelli í Abidjan, stærstu borginni á Fílabeinsströndinni, í kvöld. Landslið Fílabeinsstrandarinnar var að leika gegn Malaví í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu þegar þetta gerðist.
Troðningurinn varð þegar hundruð áhorfenda reyndu að fara inn á Houphouet-Boigny leikvanginn í þann mund sem leikurinn var að hefjast. Lögregla beitti táragasi til að reyna að hafa stjórn á mannfjöldanum, sem vildi sjá helstu knattspyrnustjörnur landsins. Veggur lét undan mannfjöldanum og jók það á ringulreiðina.
Margir fengu aðhlynningu á leikmanninum en þeir verst höldnu voru fluttir á sjúkrahús í borginni. Leikurinn fór fram þrátt fyrir þetta. Laurent Gbagbo, forseti landsins, var viðstaddur.
Leikvangurinn, sem nýlega hefur verið endurnýjaður, tekur 35 þúsund manns. Uppselt var á leikinn enda vildu margir sjá stjörnur á borð við Didier Drogba og Salomon Kalou, leikmenn Chelsea, og Kolo Toure og Emmanuel Eboue, leikmenn Arsenal, spila fyrir landið.
Leikurinn endaði 5:0 fyrir heimamenn. Drogba skoraði tvö mörk og Kalou eitt.