Forsvarsmenn stofnunar, sem var sett á laggirnar til að minnast Yassers Arafats, fyrrverandi leiðtoga Palestínumanna, segjast ætla að hefja nýja rannsókn á því hvað dró Arafat til dauða árið 2004, en dauðdaginn þykir dularfullur.
Nasser al-Qidwa, frændi Arafats, segir að á meðal þeirra sem muni taka þátt í rannsókninni séu læknarnir sem sinntu Arafat í Palestínu, þ.e. áður en hann var fluttur á sjúkrahús í París þar sem hann lést. Auk þess muni margir stjórnmálamenn og embættismenn leggja hönd á plóg.
Arafat, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels, lést á frönsku hersjúkrahúsi 11. nóvember árið 2004 eftir að hann hafði verið fluttur frá höfuðstöðvum sínum á Vesturbakkanum.
Margir Palestínumenn eru á þeirri skoðun að Ísraelar hafi eitrað fyrir Arafat, sem var 75 ára þegar hann andaðist.
Dauði Arafats var rannsakaður árið 2005. Þar kemur fram að banamein hans hafi verið mikil heilablæðing. Þá var jafnframt útilokað að leiðtoginn hafi látist af völdum eitrunar, krabbameins eða alnæmis.
Fram kemur í skýrslunni frá 2005 að ekki liggi fyrir hvað hvað olli heilablæðingunni.