Gaddafi strunsaði út

Gaddafi lét Abdullah konung heyra það og gekk svo út …
Gaddafi lét Abdullah konung heyra það og gekk svo út af fundinum. Reuters

Moammar Gaddafi, leiðtogi Líbýu, strunsaði út af fundi Arababandalagsins í Katar eftir að hafa fordæmt tengsl konungsins í Sádi-Arabíu við Vesturveldin.

Hann truflaði fundinn með því að gagnrýna Abdullah konung, en Gaddafi kallaði hann m.a. breska afurð og sagði hann vera bandamann Bandaríkjanna.

Þetta er ekk í fyrsta sinn sem Gaddafi reitir Arabaleiðtoga til reiði með ummælum sínum á leiðtogafundum. 

Á fundinum voru þjóðarleiðtogarnir einnig hvattir til þess að verða ekki við handtökutilskipun á hendur Omar al-Bashir, forseta Súdans, sem er sakaður um stríðsglæpi í Darfur.

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, bað leiðtogana um að handtaka fyrst þá sem stóðu á bak við fjöldamorð og önnur voðaverk í Palestínu, Írak og Líbanon.

Þá er búist við að áhrif Írana í Mið-Austurlöndum verði rædd á fundinum.

Nokkur ríki hafa áhyggjur af stuðningi Íransstjórnar við Hezbollah-samtökin  í Líbanon og Hamas-samtökin á Gaza.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert