Lagaprófessor óvinsælasti maður Ástralíu

Rétt skal vera rétt segir Ástralinn Bryan Pape
Rétt skal vera rétt segir Ástralinn Bryan Pape

Ástralskur prófessor hefur nú hætt á að sitja uppi með óvild milljóna samlanda sinna í tilraun sinni til að stöðva ríkisstjórnina frá því að gefa þeim hundruði dollara sem hvatningu til að fara út og versla.

Verslunarstyrkurinn er hluti af aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar, sem hyggst alls verja 42 milljörðum ástralskra dollara til að auka kaupmátt þjóðarinnar og koma efnahagnum af stað upp úr niðursveiflunni.

Yfir 7 milljónir skattgreiðenda sem þénuðu minna en 100 þúsund dollara á síðasta ári eiga samkvæmt áætluninni að fá allt að 900 dollara hver inn á bankareikningana sína í næstu viku. Kevin Rudd forsætisráðherra Ástralíu kallar greiðslurnar skattaafslátt, en lagaprófessorinn Bryan Pape hefur stefnt áætluninni fyrir rétt og hélt því fram í dag að hún bryti í bága við stjórnarskrá landsins.

„Bryan Pape reynir nú sitt allra best til að verða óvinsælasti maðurinn í Ástralíu,“  segir dagblaðið Sidney Morning Herald í dag. Þar er sagt að milljónir Ástrala  séu himin lifandi yfir að vera sagt að það sé skylda þeirra gagnvart föðurlandinu að kaupa sér eitthvað fallegt fyrir 900 dollara frá ríkisstjórninni.

Pape heldur því hinsvegar fram að það sé rangnefni að kalla greiðslurnar skattaafslátt. „Þótt þú kallir þetta það, þá þýðir það ekki að þetta sé það og fyrsta spurningin er hvort þetta sé í samræmi við skattalög,“ sagði Pape við fjölmiðla í dag. „Ég held því fram að svo sé ekki, ég held því fram að þetta sé gjöf.“ Hann segir að ríkisstjórnin sé með þessari aðgerð að misnota vald sitt en ljóst er að milljónir Ástrala eru honum ósammála og óska þess heitast að hann tapi málinu fyrir rétti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert