Afrakstur af þróunaraðstoð Norðmanna í Víetnam um langt árabil er farinn að ógna markaðsstöðu norsks sjávarútvegs í Evrópu. Á vef LÍÚ segir að Norðmenn hafi í rúma tvo áratugi veitt sem svarar hálfum öðrum milljarði íslenskra króna til þróunaraðstoðar í Víetnam.
Eldi á pangasius-fiskinum hefur verið á meðal verkefna sem notið hafa þróunaraðstoðar Norðmanna. LÍÚ segir að Pangasius flæði nú inn á evrópskan markað í meira mæli en nokkru sinni og ógni hefðbundnum mörkuðum fyrir þorsk, ýsu og ufsa.
Framleiðslan í Víetnam hefur aukist hröðum skrefum og framboðið í Evrópu í réttu hlutfalli við þá þróun. Verðið á pangagius-fiskinum er aðeins um fjórðungur þess sem þorskur er seldur á og veitingastaðir hafa notað hann í auknum mæli í fiskrétti.
Haft er eftir Trond Davidsen, markaðsstjóra sambands norskra framleiðenda sjávarafurða, að hann sé ósáttur við hvernig pangasius hefur verið markaðssettur. Neytendur séu vísivitandi blekktir með áletrunum á umbúðum. Þar segir annars vegar „Það besta úr hafinu” og hins vegar „Ríkt af omega-3.” Davidsen segir hvort tveggja rangt, pangasius hafi aldrei komið í sjó, auk þess sem flökin séu nánast laus við omega-3 fitusýrur.