Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands, hótaði því í dag að Frakkar muni ganga út af leiðtogafundi G20 ríkjanna verði ekki farið að kröfum þeirra um hertar reglur á alþjóðafjármálamarkaði. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Lagarde sagði í sjónvarpsþættinum HardTalk í dag að ekki komi til greina að Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti undirriti neina ályktun fundarins sem hann telji ófullnægjandi. Yfirvöld í Frakklandi vilja ganga mun lengra í því að herða reglur í alþjóðaviðskiptum en yfirvöld í Bandaríkjunum og Bretlandi.
„Sarkozy forseti er mjög skýr hvað þetta varðar," sagði Lagarde. „Hann hefur sagt að sé innihaldið ekki til staðar muni hann ekki skrifa undir ályktunina. Það getur vel þýtt að hann gangi út. Ég held að hann sé mjög ákveðinn."
Áður hafa bæði Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, og Barack Obama, forsæti Bandaríkjanna hafa lýst því yfir að þeir bindi miklar vonir við það að samkomulag náist á leiðtogafundinum sem fram fer í Excel byggingunni í Docklands í London á fimmtudag.
„Leiðtogarnir sem hittast í London verða að veita efnahagskerfi heimsins súrefni og sjálfstraust og gefa þannig fólki um allan heim endurnýjaða von um framtíðina,” sagði Brown. Þá hefur Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagt að hún telji mikla möguleika á að samkomulag náist á fundinum m.a. um takmarkanir á möguleikum til storttöku.Obama Bandaríkjaforseti er nú á leið til Londonen hann mun hefja fyrstu Evrópuferð sína frá því hann tók við embætti með því að sitja fundinn.
Sarkozy hefur áður gagnrýnt viðbragðsáætlanir Brown og Obama, við efnahagskreppunni í heiminum, sem miða að því að ýta undir eyðslu. Þá hefur Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Luxemborgar, lýst því yfir að hann telji hugmyndir þeirra sprottnar af sama meiði og þær aðgerðir sem komu efnahagskreppunni af stað. „Kreppan hófst í Bandaríkjunum. Engilsaxneski heimurinn hefur alltaf neitað að bæta við þeim fjármálareglum sem alþjóðafjármálakerfið hefur þurft á að halda,” sagði hann í síðustu viku.