Ný rannsókn á vegum Evrópusambandsins sýnir fram á að hommafælni (e. homophobia) hafi skaðleg áhrif á heilsu fólks og starfsframa. Ástæðan sé sú að þeir sem hafa orðið fyrir áreiti vegna kynhneigðar sinnar vilji ekki vekja á sér athygli af ótta við að verða fyrir áreiti eða ofbeldi.
Mannréttindaskrifstofa ESB segir að lögreglan í flestum Evrópuríkjum geti ekki leyst mál þar sem hommafælni kemur við sögu. Allt frá andlegu til líkamlegs ofbeldis, jafnvel árása sem leiða til dauða. Stofnunin segir að margar ríkisstjórnir í Evrópu og skólayfirvöld sjái ekki hvað málið sé alvarlegt.
Ástandið skapar vítahring og því vilja margir samkynhneigðir frekar vera ósýnilegir fremur en að vera opnir varðandi kynhneigð sína. Þeir sleppa því jafnvel að tilkynna um misnotkun eða ofbeldi.
Fram kemur í skýrslunni að í mörg ár hafi verið notuð niðrandi orð í skólum um homma og lesbíur. Þetta leiði til þess að margir samkynhneigðir vilji láta lítið á sér bera, að því er fram kemur á fréttavef Reuters.
Bent er á að samkynhneigðir verði oft fyrir áreiti og mismunum á vinnustaðnum og í mörgum löndum njóti samkynhneigð pör ekki sömu réttinda og gagnkynhneigð pör, þ.e. njóti ekki lagaverndar.
Í skýrslunni er lagt til að hægt verði að koma nafnlausum ábendingum á framfæri til að sporna við vandanum. Skýrsluhöfundar vísuðu t.d. til frumkvöðlastarfsemi á þessu sviði í Hollandi, Danmörku og Slóveníu, sem hafi gefist vel.
Tekið er fram að flóttamannahæli tengist mörgum alvarlegustu málunum. Dæmi séu um að hælisleitendum hafi verið neitað að koma inn í lönd þar sem yfirvöld trúa því ekki að fólkið sé að flýja ofsóknir, sem tengist kynhneigð þeirra.