Hóta Íslendingum vegna hvalveiða

mbl.is/Ómar

Stórar erlendar smásölukeðjur lýsa miklum áhyggjum vegna hvalveiða Íslendinga og hóta að beina viðskiptum sínum annað. Keðjurnar spyrja hvort hvalveiðarnar séu svo mikilvægar að Íslendingar vilji setja markaði með sjávarafurðir sínar í uppnám. Whole Foods, Sainsbury’s, Waitrose og Marks & Spencer bætast nú í fjölmennan hóp sem gagnrýnir hvalveiðar Íslendinga.

Intrafish, stærsta tímarit sem fjallar um sjávarútveg í heiminum, fjallar um þá ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar fyrrverandi sjávarútvegsráðherra að leyfa hvalveiðar í atvinnuskyni á ný. Intrafish segir hvalveiðiheimildina heita kartöflu sem fyrrverandi sjávarútvegsráðherra hafi kastað í kjöltu minnihlutastjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs en hinir síðarnefndu séu andvígir hvalveiðum. Þá segir að jafnvel þó sama stjórnarmynstur haldi áfram að loknum kosningum í apríl, þá verði ákvörðuninni ekki snúið á þessu ári.

Smásölukeðjur ósáttar

Í bréfi sem AC Gallo, aðstoðarforstjóra Whole Foods keðjunnar sendi Hjálmari W. Hannessyni, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum er vonbrigðum lýst vegna ákvörðunar um auknar hvaleiðar Íslendinga. „Ef Íslendingar halda uppteknum hætti, mun spurn eftir íslenskum vörum í verslunum okkar dragast minnka. Þá neyðumst við til að leita annað með aðföng í okkar verslanir,“ segir í bréfinu.

Talsmaður Sainsbury’s vísar til langrar farsællar sögu viðskipta við íslensk fyrirtæki og segir að stefnubreyting íslenskra stjórnvalda í hvalveiðum verði rædd í heimsókn fulltrúa fyrirtækisins til Íslands í júní.

Talsmenn Whole Foods, Sainsbury’s, Waitrose og Marks & Spencer lýsa allir sömu skoðun og segja að ímynd Íslands og íslenskra afurða beri mikinn skaða vegna hvalveiðanna.

Jeremy Langley hjá Waitrose lýsir í bréfi til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og birgja á Íslandi, áhyggjum vegna hvalveiðanna og segir viðskiptavini Waitrose vel upplýsta.

Ábyrg stjórnun

Intrafish ræðir við Sigurð Sverrisson hjá LÍÚ sem segir hvalveiðarnar í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar. Íslendingar stundi ábyrga nýtingu auðlinda hafsins.

Intrafish rekur ákvörðun um hvalveiðar í atvinnuskyni til Kristjáns Loftssonar, forstjóra Hvals og eins eigenda HB Granda.

Eggert Guðmundsson, forstjóri HB Granda segir í samtali við Intrafish að tengslin við hvalveiðarnar hafi ekki komið niður á sölu sjávarafurða HB Granda í Bretlandi.

Vefur Intrafish

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka