Barack Obama, Bandaríkjaforseti, kom í kvöld til Lundúna. Flugvél forsetans lenti á Stansted flugvelli norðan við borgina. Þaðan var forsetinn fluttur með eigin þyrlu til London þar sem honum verður ekið um í eigin bíl til og frá fundarstað 20 helstu þjóða heims. Auk kokka og lækna eru hundruð öryggisvarða í föruneyti forsetans.
Á meðan þota forsetans, Air Force One, lenti á Stansted urðu flugvélar lágfargjaldaflugfélaga að bíða, að því er breskir fjölmiðlar greindu frá. Breskir sjónvarpsmenn höfðu á orði hversu hávaxin Michelle Obama forsetafrú væri þegar forsetahjónin heilsuðu lágvaxnari Bretum.
Þetta er fyrsta Evrópuferð Obama eftir að hann var kjörinn forseti en hann mun sitja leiðtogafund svonefndra G20 ríkja í Lundúnum á fimmtudag.
Obama mun einnig eiga fundi með Dmitrí Medvedev, forseta Rússlands, og Hu Jintao, forseta Kína, á morgun og einnig eiga viðræður við Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands.
Gríðarlegur viðbúnaður er í Bretlandi vegna leiðtogafundarins á fimmtudag. Áætlað er að 20 þúsund lögreglumenn verði við öryggisgæslu í borginni en óttast er að samtök stjórnleysingja og ýmis önnur samtök muni standa fyrir umfangsmiklum mótmælaaðgerðum.
Á föstudag mun Obama halda til Frakklands og Þýskalands og sitja leiðtogafund NATO, sem haldinn er í tilefni af því að 60 ár eru liðin frá stofnun bandalagsins.
Mikil eftirvænting ríkir í Evrópu vegna heimsóknar Obamahjónanna, sú mesta, að sögn fréttaskýrenda, frá því John F. Kennedy og Jacqueline Kennedy komu þangað fyrst í heimsókn sem forsetahjón Bandaríkjanna.
Átta af hverjum tíu Bandaríkjamönnum eru þeirrar skoðunar að nýi forsetinn þeirra verði verðugur fulltrúi þeirra á Evrópuferðalaginu. Könnunin, sem var á vegum CNN sjónvarpsstöðvarinnar, var gerð rétt í þann mund sem forsetinn hélt af stað til London.
Sjö af hverjum tíu Bandaríkjamönnum eru þeirrar skoðunar að leiðtogar annarra landa beri virðingu fyrir Obama og er sú tala miklu hærri en þegar þeir voru spurðir um George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.