Sex ára börn í nýnasistabúðum

Þýsk stjórnvöld lögðu í dag bann við nýnasistahópi sem rak búðir í anda Hitlers þar sem börnum, allt niður í sex ára, var kennt að þjóðinni stæði ógn af útlendingum og gyðingum.

Hópurinn kallaði sig HDJ og sagðist vera æskulýðshreyfing sem berðist fyrir umhverfinu, samfélaginu og heimalandinu. Í raun rak hann herbúðir fyrir börn þar sem þeim voru innrætt „fordómafull gildi,“ að sögn innanríkisráðuneytis Þýskalands.

Börnunum var einnig kennt í anda kenningar þriðja ríkisins, t.d. um „hreint blóð“ og „varðveislu þýska kynþáttarins“, með það að markmiði að mynda nýnasista-elítu. Börnin tóku þátt í hefðbundinni herþjálfun og gistu í skálum sem báru nöfn er vísuðu í þekkta nasista.

Í ágúst sl. réðst lögregla til inngöngu í búðir HDJ í norðausturhluta Þýskalands og sendi heim 39 börn og unglinga sem klædd voru í einkennisbúninga. Lagt var hald á ýmsa muni, þ.á m. handklæði og söngnótur merktar með hakakrossinum. Um 400 meðlimir eru í HDJ en hópurinn er talinn vera arftaki Víkingaæskunnar (þ. „Wiking-Jugend“) sem var bönnuð árið 1994.

Innanríkisráðherra Þýskalands, Wolfgang Schauble, sagði í dag: „Með banninu ætlum við að binda endi á ógeðfellda starfsemi HDJ. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að vernda börn okkar fyrir þessu. Við verðum að berjast ákaft gegn hægri-öfgum. Bannið er dæmi um þessa ákefð.“

Í kjölfar bannsins var ráðist inn á heimili leiðtoga HDJ snemma í morgun. Þar voru ýmsir munir gerðir upptækir.

Uppgangur nýnasistahópa í Þýskalandi veldur mörgum landsmönnum áhyggjum. Fyrr í mánuðinum vakti mikla athygli þegar fjöldi útlendinga varð fyrir árásum á vinsælu ferðamannasvæði. Þá eru fjórir unglingar í haldi í Weimar fyrir að hrópa að starfsmanni austurlenskrar búðar á fordómafullan hátt og heilsa honum að sið nasista.

Þá héldu 6.000 nýnasistar í göngu í Dresden í febrúar til að minnast þess að 64 ár voru liðin síðan sprengjur féllu á borgina. Um var að ræða eina stærstu gönguna síðan Þýskaland sameinaðist fyrir tæpum 20 árum. Að sögn innanríkisráðuneytisins jukust glæpir, sem rekja má til öfgahægrihópa, um 30% í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert