Nýr utanríkisráðherra Ísraels, Avigdor Lieberman, sagði í dag að ef Ísraelsmenn létu undan kröfum Palestínumanna í friðarsamningnum myndi það þýða stríð en ekki frið. Sagðist hann andvígur þeim friðarviðræðum, sem fyrirrennari hans hefði tekið þátt í.
Þá sagði Lieberman, að Ísraelsmenn væru ekki bundnir af samkomulagi, sem gert var í Maryland í Bandaríkjunum 2007 um að leita eftir samningum um sjálfstætt ríki Palestínumanna.
Þetta kom fram þegar Lieberman tók formlega við lyklavöldum að utanríkisráðuneytinu í Jerúsalem. Tzipi Livni, fráfarandi utanríkisráðherra, greip nokkrum sinnum fram í fyrir Lieberman og andmælti honum og ísraelskir sendimenn voru afar ókyrrir í salnum á meðan nýi ráðherrann talaði.