Leiðtogar 20 helstu efnahagsvelda heims munu reyna að komast að samkomulagi um hvernig mæta skuli efnahagskreppunni. Leiðtogarnir munu hittast yfir morgunverði í fyrramálið en í kjölfarið hefjast viðræður fyrir alvöru. Búist er við áframhaldandi mótmælum í fjármálahverfi Lundúna á morgun.
Í aðdraganda fundarins hefur aðalágreiningurinn verið á milli Frakka og Þjóðverja annarsvegar, en þeir vilja harðari reglur varðandi fjármálakerfi heims og Bretlands og Bandaríkjanna hinsvegar, sem halda því fram að auknar ríkisfjárveitingar muni hjálpa til við að milda kreppuna.
Að mati viðskiptaritstjóra breska fréttamiðilsins BBC, Stephani Flanders, eru G20 þjóðirnar þó nálægt því að ná samkomulagi. Helsti ágreiningurinn sé efnahagslegs eðlis frekar en hugmyndafræðilegs. Upphæð aukafjárveitingar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, til hjálpar illa stöddum þjóðum, er talið verða eitt helsta ágreiningsefnið.
Mikill viðbúnaður verður vegna fundarins á morgun en 32 voru handteknir í dag að sögn bresku lögreglunnar auk þess sem einn maður lést í tengslum við mótmælin. Ekki er vitað um dánarorsök en hann var fluttur meðvitundarlaus á sjúkrahús þar sem hann svo var úrskurðaður látinn. Um 5.000 mótmælendur mótmæltu á götum Lundúna í dag.
Búist er við lokaniðurstöðum fundarins um hálf fjögurleytið á morgun.