Karzai styður nauðganir innan hjónabands

Hamid Karzai, forseti Afganistans
Hamid Karzai, forseti Afganistans Reuters

Vestrænir leiðtogar þrýsta nú á Hamid Karzai, forseta Afganistans, að draga til baka stuðning sinn við lög sem banna konum að neita að stunda kynlíf með eiginmönnum sínum. Lögin kveða einnig á um að giftar konur verði að leita samþykkis eiginmanna sinna áður en þær ráða sig í vinnu, hefja nám eða fara til læknis. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten. 

Málið kom til umræðu á ráðstefnu Sameinu þjóðanna um málefni Afganistans í Haag í gær og mun Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þar hafa tekið Karzai á eintal og hvatt hann til að afturkalla stuðning sinn við lögin.

„Bandaríkin munu fylgjast náið með þessu,” sagði hún eftir fundinn. „Afstaða mín er skýr. Kvenréttindi eru mikilvægur hluti af utanríkisstefnu ríkisstjórnar Obama."

Malloch Brown, utanríkisráðherra Bretlands, tók í sama streng. „Réttindi kvenna eru einmitt ein ástæða þess að Bretland og mörg önnur vestræn ríki hófu þátttöku í hernaðinum í Afganistan. Þau skipta Breta miklu máli,” sagði hann.

Karzai er sagður hafa undirritað lögin fyrir mánuði síðan en það hefur ekki fengist staðfest. Er málið talið tengjast kosningabaráttu hans fyrir endurkjöri í ágúst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert