Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði eftir fund sinn með Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, í morgun að heimurinn standi nú frammi fyrir mestu efnahagserfiðleikum frá síðari heimsstyrjöld og að mikið liggi við að gripið verði til skjótra aðgerða til lausnar efnahagskreppunnar. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Þá sagði hann leiðtoga G20 ríkjanna, sem hittast í London á morgun verða að hafna verndarstefnu og styðja opnun markaða. „Bandaríkin hafa skuldbundið sig til þess að vinna með Bretum og gera hvað sem til þarf til að ýta undir hagvöxt, auka eftirspurn og koma í veg fyrir að slík kreppa geti skapast nokkurn tíma aftur," sagði hann.
Brown sagði eftir fund þeirra að leiðtogarnir stefni að því að endurnýja hið sérstaka samband Bandaríkjanna og Bretlands og auka mikilvægi þess. Þá sagðist hann einungis telja nokkra klukkutíma í að leiðtogar G20 ríkjanna samþykki áætlun um fjármálaumbætur sem muni endurreisa fjármálakerfi heimsins.
Bandarísku forsetahjónin Barack og Michelle Obama komu í gærkvöldi til Lundúna þar sem forsetinn mun á morgun sitja leiðtogafund G20 ríkjanna. Hjónin komu í morgun í Downingstræti 10 þar sem Obama átti fund með Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands. Eiginkonur þeirra Michelle og Sarah heimsóttu hins vegar sjúklinga á krabbameinsdeild Charing Cross sjúkrahússins í morgun.