Aðstoðaði við 29 þúsund morð

Færa á hinn 89 ára gamla Ivan Demjanjuk fyrir rétt í Þýskalandi en hann er ásakaður um að hafa aðstoðað við morð á a.m.k. 29 þúsund gyðingum þegar hann starfaði sem fangavörður í Sobibor útrýmingarbúðunum. Demjanjuk hefur verið búsettur í Bandaríkjunum síðustu 57 árin.

Flogið verður með Demjanjuk til München næsta mánudag. Við komuna verður hann umsvifalaust handtekinn og annað hvort fluttur í fangelsi eða á fangelsissjúkrahús. Demjanjuk hafði beðið yfirvöld í Bandaríkjunum að framselja sig ekki sökum bágrar heilsu en því var neitað. Demjanjuk þjáist af einhvers konar afbrigði hvítblæði.

Ivan Demjanjuk fæddist í Úkraínu en breytti nafni sínu í John þegar hann flutti til Bandaríkjanna árið 1952. Nafn hans var í 2. sæti á lista sem búinn var til í fyrra yfir eftirlýsta stríðsglæpamenn úr röðum nasista. Í 1. sæti var Aribert Heim en nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að hann lést árið 1992. Demjanjuk er sagður hafa unnið í Sobibor útrýmingarbúðunum í Póllandi frá mars til september árið 1943. Haft hefur verið upp á vitnum sem geta lýst því hvernig Demjanjuk sparkaði í gyðinga í Sobibor eða lamdi í þá með rifflinum sínum til að fá þá hraðar út úr lestunum sem fluttu þá í búðirnar. Sobibor hefur verið lýst sem „eins líkum stað og helvíti og hægt er að skapa hér á jörðu.“

Demjanjuk var dæmdur til dauða árið 1988 í Ísrael þar sem  hann var grunaður um að vera hinn illræmdi fangavörður „Ívan grimmi“ en hann óttuðust margir og þótti hann vera haldinn gríðarlegri pyntingarhvöt, mest allra fangavarða SS dauðasveitanna. Dómnum var hnekkt 5 árum síðar þegar fyrrverandi fangaverðir við búðirnar sögðu annan mann vera Ívan grimma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert