Lögreglan yfirheyrir Lieberman

Avigdor Lieberman, nýr utanríkisráðherra Ísraels.
Avigdor Lieberman, nýr utanríkisráðherra Ísraels. Reuters

Lögreglan í Ísrael yfirheyrði nýjan utanríkisráðherra Ísraels, Avigdor Lieberman, í að minnsta kosti sjö klukkustundir í dag vegna gruns um að hann hefði gerst sekur um spillingu.

Lögreglan sagði að Lieberman hefði verið yfirheyrður vegna gruns um mútuþægni og peningaþvott. Lieberman hefur neitað öllum ásökunum um spillingu og sagt að þær séu af pólitískum rótum runnar.

Fréttastofan AP segir að yfirheyrslurnar tengist rannsókn sem staðið hefur lengi. Talið er að ásakanirnar tengist fyrirtæki sem dóttir Liebermans rekur.

Lieberman er mjög umdeildur stjórnmálamaður og tók við embætti utanríkisráðherra í nýrri stjórn Benjamins Netanyahus á þriðjudaginn var. Hann hefur sagt að Ísraelar séu ekki bundnir þeim fyrirheitum, sem þeir gáfu á ráðstefnu í Annapolis í Bandaríkjunum 2007, um að vinna að stofnun sérstaks ríkis Palestínumanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert