Viðræðurnar að hefjast

Leiðtogar G20 þjóðanna, helstu efnahagsvelda heims, hittust áðan yfir morgunverði en að honum loknum munu þeir hefja tæplega fimm tíma viðræður um hvernig hægt verði að takast á við erfiðasta efnahagsástand sem heimurinn hefur kynnst síðan á 4. áratug síðustu aldar.

Gert er ráð fyrir að fundinum ljúki klukkan 14:30 dag með útgáfu ályktunar þar sem lýst verður aðgerðum sem eiga að stemma stigu við því að ástand eins og nú ríkir í alþjóðlegu fjármálakerfi, komist aftur á. Bandaríkjamenn vilja, að vogunarsjóðir og eignarhaldsfélög verði sett undir alþjóðlegt eftirlit. Þá verði sett á fót ný eftirlitsstofnun sem hafi vald til að skikka fyrirtæki til að auka hlutafé sitt eða draga úr lántökum.

Búist er við að mikil mótmæli verði í dag en í gær lést einn mótmælandi og a.m.k. 87 manns voru handteknir. Mótmælendur eru þegar byrjaðir að safnast við Kauphöllina í London þó fregnir herma að mun fleiri lögreglumenn en mótmælendur séu á staðnum.

Fundurinn er haldinn í Excel Centre í London og þar er öryggisgæslan ströng. Aðalágreiningsefnin eru milli Frakklands og Þýskalands annars vegar og Bretlands og Bandaríkjanna hinsvegar. Fyrrnefndu ríkin vilja leggja áherslu á hertari reglugerðir í fjármálakerfinu meðan hin síðarnefndu telja meiri útgjöld hins opinbera betra vopn í baráttunni gegn kreppunni.

Forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, hefur hótað því að ganga af fundinum fáist engar afgerandi niðurstöður. Sarkozy gerði það ljóst í gær að hann væri óánægður með þau drög sem gerð höfðu verið að samkomulagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka