Ekki fékkst niðurstaða á leiðtogafundi NATO í kvöld um hver verði næsti framkvæmdastjóri bandalagsins þrátt fyrir að Þjóðverjar hvettu til þess að Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, yrði fyrir valinu. Tyrkir hafa ekki viljað fallast á að danski forsætisráðherrann stýri NATO.
James Appathurai, talsmaður NATO, sagði eftir vinnukvöldverð þjóðarleiðtoganna í Baden-Baden í Þýskalandi, að ekki hefði verið tekin ákvörðun í málinu en það yrði rætt áfram á morgun.
Appathurai vildi ekki upplýsa um viðræðurnar í kvöld. Tyrkir hafa gefið til kynna að þeir kunni að beita neitunarvaldi gegn Fogh Rasmussen vegna óánægju múslima með skopmyndamálið svonefnda og fleiri ágreiningsefni.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagðist fyrr í dag vona að ákvörðun yrði tekin í kvöld og að Rasmussen væri einkar góður kostur.