Múslímar sem beðið hafa bænir sínar í um 200 gömlum moskum í Mekka hafa snúið í ranga átt við bænahaldið áratugum saman, því að moskurnar voru ekki rétt byggðar.
Moskurnar, voru að sögn sádí-arabíska blaðsins Saudi Gazette, ekki byggðar nákvæmlega samkvæmt qibla stöðlunum sem segja til um stöðu Kaaba helgidómsins í Al-Haram moskunni í Mekka.
Hundruð milljóna múslíma víðsvegar um heim snúa sér í átt að hinu forna Kaaba er þeir segja bænir sínar og moskur um allan heim eru byggðar þannig að þær snúi að helgidóminum.
Villan í stöðu mosknanna í Mekka, sem eru um hálfrar aldar gamlar, kom hins vegar ekki í ljós fyrr en farið var að skoða stöðu þeirra ofan af skýjakljúfum sem verið er að reisa í borginni.
Sádí-arabíska dagblaðið Al-Hayat, segir Tawfik al-Sudairy, ráðherra íslamskra málefni, gera lítið úr vandanum. „Það eru engar meiriháttar villur, en leiðréttingar hafa verið gerðar á sumum gömlu mosknanna með hjálp nútímatækni. Þetta hefur heldur enginn áhrif á bænirnar,“ hefur blaðið eftir ráðherranum.
Ýmsar uppástungur hafa þó verið ræddar til að vandi tengdur réttri bænastöðu verði úr sögunni, m.a. að háum leisergeisla verði varpað úr hæstu mínarettu Al-Haram moskunnar til að svo rétta áttin fari nú ekkert á milli mála.