Forsætisráðherraskipti í Danmörku

Lars Løkke Rasmussen.
Lars Løkke Rasmussen.

Forsætisráðherraskipti verða í Danmörku í dag en Anders Fogh Rasmussen mun ganga á fund Margrétar Danadrottningar klukkan 11:30 og óska eftir lausn frá embætti vegna þess að hann mun í sumar taka við stöðu framkvæmdastjóra NATO.

Lars-Løkke Rasmussen, varaformaður Venstre, mun klukkutíma síðar ganga á fund drottningar og verða settur í embætti forsætisráðherra Danmerkur. Hann mun áfram stýra minnihlutastjórn Venstre og Íhaldsflokksins, sem nýtur stuðnings Danska þjóðarflokksins.

Lene Espersen, leiðtogi Íhaldsflokksins, átti fund með Fogh Rasmussen í morgun og sagði á eftir, að Lars Løkke Rasmussen sé afar góður kostur í embætti forsætisráðherra.

Lars Løkke Rasmussen  er 45 ára að aldri, lögfræðingur að mennt. Hann hefur setið á danska þinginu frá árinu 1994 og í núverandi ríkisstjórn frá því hún var mynduð 2001, fyrst sem heilbrigðisráðherra en síðan sem fjármálaráðherra.  Eiginkona hans, Sólrun Jákupsdóttir Løkke Rasmussen, er frá Færeyjum og starfar sem kennari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert