Bandaríski herinn dregur í efa þá fullyrðingu Norður-Kóreumanna að þeim hafi tekist það ætlunarverk sitt að koma gervihnetti á sporbaug um jörðu. Segja talsmenn bandaríkjahers sprengihleðsluna hafa endað í Kyrrahafinu.
„Fyrsti hluti flaugarinnar féll í Japanshaf,“ segir í yfirlýsingu hersins. „Aðrir hlutar ásamt sprengihleðslunni féllu í Kyrrahafið. Enginn hlutur fór inn á sporbaug og ekkert rusl féll yfir Japan.“
Yfirlýsingin bandaríkjahers kom í kjölfar þess að Norður-Kóreumenn sögðu gervihnöttinn snúast eðlilega á sporbaugi og að hann sendi nú út „ódauðlega uppreisnarsöngva,“ sem lofuðu núverandi og fyrrverandi leiðtoga ríkisins.