Norður Kóreumenn skjóta eldflaug á loft

Norður Kóreumenn skutu í nótt upp langdrægri eldflaug eins og þeir höfðu boðað. Tilgangurinn er að þeirra sögn að skjóta á loft gervihnetti og var haft eftir suður kóreskum embættismanni í morgun að svo virtist sem að flaugin hafi borið gervihnött en hvort hann hafi komist á sporbaug um jörðu sé enn óljóst.

Norður kóreanskir ríkisfjölmiðlar segja gervihnöttinn hins vegar þegar kominn á sporbaug umhverfis jörðu og að hann varpi þar nú út upplýsingum og uppreisnarsöngvum.

Suður Kóreumenn, Japanar og Bandaríkjamenn hafa fullyrt að Norður Kóreumenn séu að prófa langdræga eldflaug sem dregið gæti til Alaska. Tilraunin stríði enda gegn ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna hvort sem um geimskot með gervihnött sé að ræða eða ekki. Þjóðirnar hafa því fordæmt skotið. Hafa japönsk stjórnvöld auk þess  farið fram á neyðarfund í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Hefur Barack Obama Bandaríkjaforseti, að sögn BBC, hvatt norður-kóreönsk stjórnvöld til að grípa ekki til fleiri ögrandi aðgerða. Norður-Kórea hefur hins vegar til þessa „hundsað alþjóðlegar skuldbindingar sínar, hafnað ótvíræðum beiðnum um hömlur og þar með einangrað sig enn frekar frá alþjóðasamfélaginu,“ sagði Obama.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir aðgerðir Norður-Kóreumanna ekki til þess gerðar að koma á stöðugleika á svæðinu og tók Evrópusambandið í sama streng. Stjórnvöld í Kína og Rússlandi hafa hins vegar hvatt alla til að sýna hófsemi.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt beiðni Japana um að neyðarfundur verði haldin í ráðinu í New York síðar í dag.

Suður Kóreumenn, Japanar og Bandaríkjamenn telja Norður Kóreumenn vera að …
Suður Kóreumenn, Japanar og Bandaríkjamenn telja Norður Kóreumenn vera að prófa langdræga eldflaug sem dregið gæti til Alaska. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert